Kyrrðarkraftur
Kyrrðarkraftur er uppbyggingarsetur fyrir fólk sem vill bæta eigin heilsu á heildrænan hátt, móta sér skýra framtíðarsýn og marka sér stefnu í lífinu. Markmið Kyrrðarkrafts er að nýta þá galdra sem Strandir hafa upp á að bjóða öðrum til heilla með því að bjóða fólki að byggja sig upp í okkar einstaka umhverfi með aðstoð einvalaliðs sérfræðinga á fjölbreyttum sviðum. Áherslan er á fólk sem vill draga andann, endurskoða forgangsröðun sína í lífinu og byrja upp á nýtt af krafti og skynsemi.


Einkunnarorð okkar

Næring
í Kyrrðarkrafti er unnið með næringu frá öllum hliðum. Þátttakendur fá að læra hvernig hægt er að innleiða nærandi mat í líf sitt með því að elda sjálft og fá fræðslu um heilsusamlegt mataræði.

Náttúra
Rannsóknir hafa sýnt fram á að náttúran hefur lækningamátt þegar kemur að því að vinna gegn streitu og álagi.

Núvitund
Með því að hægja á er hægt að endurstilla fókusinn. Í kyrrðinni á Ströndum skapar Kyrrðarkraftur umhverfi og stuðning til að færa athyglina á núið og þjálfa það.

Kulnun er ólík þunglyndi á þann hátt að það er ástand sem er háð aðstæðum. Við fjarlægjum einstaklingana úr þeim streituvaldandi aðstæðum sem leiddu út í kulnun og gefum þeim svigrúm til að vinna upp andlega- og líkamlega heilsu. Auk þess að ná fjarlægð til að greina hvaða vinnu- og/eða heimilisaðstæður leiddu út í þetta ástand. Staðurinn býður einnig upp á mikla ró og fjölbreytta möguleika innan náttúru endurhæfingar en rannsóknir hafa sýnt að náttúruendurhæfing er áhrifarík leið til að vinna á kulnun.